Kjánaskapur eða lýðskrum?

LENGI vel hef ég alið þá ósk í brjósti mér að vísindamenn um allan heim taki höndum saman og vinni að farsælli lausn á þessum mikla vanda, sem steðjar stöðugt hraðar að lífskjörum hér á jörðinni. En annað virðist vera upp á teningnum hér heima. Málflutningurinn hefur vægast sagt verið sorglegur. Stjórnarþingmenn, ráðherrar og rollur – raforkufyrirtækjanna stýra umræðunni langt frá kjarna málsins. Afstaða þeirra síðastnefndu getur þó verið afsakanleg í ljósi þeirra markmiða sem sótt er að. En sá póll sem umhverfisráðherra hefur tekið í hæðina er óafsakanlegur.

Ef einhver metnaður hefði verið lagður í rannsóknir á hlutskipti endurnýtanlegra orkulinda Íslands til loftlagsbreytinga. Þá mætti sjá það svart á hvítu að sama hversu mörg álver yrðu drifin af orku landsins, myndi það litlu breyta á heimsvísu í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin.

Tökum sem dæmi. Samkvæmt 2. áfanga rammaáætlunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins er áætlað að hér á landi megi virkja um 7 terawattstundir á ári, til viðbótar þeirri orku sem nú þegar hefur verið beisluð. En hversu mikið ál er mögulegt að framleiða fyrir 7 terawattstundir á ári? Niðurstaðan er um 500.000 tonn og til samanburðar þá nær það ekki einu sinni 5% af heildarframleiðslu áls í öllum heiminum. Hver er þá ávinningurinn? Miðað við röksemdafærslur umhverfisráðherra, í nýlegum viðtölum og greinarskrifum, er þetta okkar þyngsta lóð á vogarskálarnar í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Álframleiðendur fá Ísland að láni og nýta endurnýjanlega orkugjafa landsins í stað orku unninnar úr jarðefnaeldsneyti, sem býðst frekar í öðrum löndum, með tilheyrandi mengun. Ábyrgðin er mikil á okkar litla landi og glaður mun ég taka þátt í þessari baráttu ráðherrans ef við getum virkilega breytt eins miklu og kemur fram í máli hennar... Hversu miklu getum við þó breytt með þessari landspillingarstefnu?

Tökum annað dæmi. Ef öll samanlögð orka sem fer til álframleiðslu hér á landi, auk þeirra 7 terawattstunda sem fyrirhugaðar eru til virkjunar, væri knúin af jarðefnaeldsneyti. Hversu mikinn þátt ætti sú orka í útblæstri koltvísýrings á heimsvísu? (Forsendur reikninga byggjast eingöngu á opinberum mengunartölum Sameinuðu þjóðanna). Niðurstaðan er 0,09% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda í öllum heiminum. Ef umhverfisráðherra álítur að besta leið okkar Íslendinga til aðstoðar við loftslagsbreytingar sé þessi leið, tel ég ráðherrann stórlega vanhæfan. Sú þekking sem skapast hefur við virkjanaframkvæmdir hér á landi nýtist heimsbyggðinni best til frelsunar landa sem nýtir óendurnýtanlega orku til rafmagnsveitna, en ekki til frekari útsölu hér heima.

Að halda því fram að endurnýtanlegar orkulindir okkar, sem fara minnkandi með ári hverju, muni skipta sköpum í baráttunni við loftslagsbreytingar er líkt og að segja að Litla-Hraun væri lausn fangelsismála í Suður-Ameríku!

Það er mitt faglega mat að helsta vopnið í baráttunni við loftslagsbreytingar sé fræðsla almennings í heiminum um endurvinnslu. Einnig er mjög mikilvægt að stórauka fjárframlög til vísindarannsókna á vistvænum eldsneytisgjöfum. Ísland getur hæglega orðið sá miðpunktur jarðarinnar þar sem rannsóknir tengdar loftslagsbreytingum fara fram. Þetta gerist þó ekki nema með stuðningi ríkisstjórnarinnar.

Höfundur er rafeindavirki og náttúruverndarsinni.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband